Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands í fótbolta er með COVID-19 veiruna. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.
Aron er staddur á Spáni með Al-Arabi í æfingabúðum en hann hefur verið með veiruna síðustu daga og ekki mátt fara út af hótelherbergi sínu.
„Fyrirliðinn sjálfur er smitaður, fastur á hótelherbergi á Spáni og fer í próf annan hvern dag. Hann reynir að ná þessum skít úr sér,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í þættinum sem birtist í gærkvöldi.
Íslenski landsliðshópurinn fyrir komandi verkefni verður valinn á morgun, liðið leikur gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi á heimavelli.
„Þetta er alvarlegt mál fyrir íslenska landsliðið, ef við ætlum að eiga einhvern möguleika þurfum við sex til níu punkta,“ sagði Kristján Óli en góðar líkur eru taldar á að Aron verði klár í slaginn.
Ísland er með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina en liðið leikur nú sjö leiki á næstu rúmu tveimur mánuðum.