Liverpool tók á móti Burnley í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í dag. Leiknum lauk með 2-0 sigri Liverpool en loksins mátti sjá áhorfendur á Anfield og tóku þeir hressilega undir þegar You´ll Never Walk Alone var spilað.
Leikmenn Burnley mættu ákveðnir til leiks og náði Liverpool lítið að ógna til að byrja með. Það þurfti þó bara eina góða sókn til að koma heimamönnum yfir en það gerði Diogo Jota með skalla eftir sendingu frá Tsimikas. Tíu mínútum síðar skoraði Salah mark eftir góðan bolta frá Elliot en VAR dæmdi það af vegna rangstöðu. Elliot byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Ashley Barnes kom boltanum í netið strax í byrjun seinni hálfleiks en það mark var einnig dæmt af vegna rangstöðu. Leikurinn var nokkuð opinn í seinni hálfleik og fengu leikmenn Liverpool nokkur tækifæri til þess að auka forystuna. Á 70. mínútu tvöfaldaði Mane forystu Liverpool eftir góðan samleik frá Elliott og Alexander-Arnold og þar við sat og 2-0 sigur Liverpool staðreynd
Liverpool 2 – 0 Burnley
1-0 Diogo Jota (´18)
2-0 Sadio Mané (´69)