Portúgalska liðið Pacos de Ferreira vann 1-0 sigur á Tottenham í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld. da Silva de Jesus skoraði sigurmark heimamanna á lokamínútu fyrri hálfleiks.
Nuno Espirito Santo gerði 11 breytingar á liðinu sem byrjaði leikinn gegn Man City á sunnudaginn. Nokkur ungstirni fengu að spreyta sig í liði Spurs, þar á meðal Dane Scarlett og Nile John.
Það gekk illa hjá Tottenham að skapa færi en liðið átti einungis þrjú skot í leiknum og ekkert á markið. Pacos menn voru skipulagðir og þéttir fyrir og tókst vel að loka á hlaup sóknarmanna Tottenham.
Seinni leikur liðanna verður leikinn á Tottenham vellinum í Lundúnum þann 26. ágúst næstkomandi.