Aaron Ramsdale hefur ekki verið formlega kynntur sem leikmaður Arsenal en stuðningsmenn félagsins eru samt sem áður byrjaðir að áreita hann.
Ramsdale er í læknisskoðun hjá Arsenal en félagið er að kaupa hann frá Sheffield United á 30 milljónir punda.
Markverðinum er ætlað að veita Bernd Leno mikla samkeppni um markvarðarstöuna hjá félaginu. Ramsdale hefur nú áður en hann er kynntur sem leikmaður félagsins lokað fyrir að allir geti sett inn ummæli á Instagram síðu hans.
Ástæðan er sú að stuðningsmenn Arsenal hafa verið að senda honum ljóta skilaboð í gegnum samfélagsmiðilinn.
„Þú ættir að brenna í helvíti, helvítis drullusokkur. Haltu þig frá Arsenal,“ skrifar einn.
„Við viljum þig ekki til Arsenal, farðu til fjandans. Treystu mér, þú verður áreittur frá fyrsta degi,“ skrifar annar.
Arsenal er heldur betur að taka upp veskið en félagið krækti í Ben White á dögunum fyrir 50 milljónir punda og er nú að kaupa Martin Odegaard og Ramsdale á rúmar 60 milljónir punda.
Ramsdale mun taka stöðuna í leikmannahópi Arsenal af Rúnari Alex Rúnarssyni sem er orðaður við brottför frá Arsenal.