Raul Jimenez, framherji Wolves, sagði í viðtali á dögunum að læknar hefðu sagt honum að hann væri heppinn að vera á lífi eftir að hann höfuðkúpubrotnaði í leik gegn Arsenal í nóvember í fyrra.
Jimenez lék sinn fyrsta leik í níu mánuði gegn Leicester á laugardaginn var. Hann þarf að klæðast sérstökum höfuðbúnaði, bæði á æfingum og í leikjum það sem eftir lifir ferilsins.
Hann sagði að það hefði aldrei hvarflað að honum að leggja skóna á hilluna
„Ég hélt alltaf að þetta væri kannski ökkla- eða hnémeiðsl, og að ég færi aftur að gera það sem ég elska eftir endurhæfingu,“ sagði Jimenez.
„Ég spáði aldrei í að leggja skóna á hilluna eða hætta að spila fótbolta. Það var möguleiki að ég þyrfti þess, en ég var alltaf sannfærður um að ég myndi spila aftur.“