Samkvæmt heimildum Sky Sports á Englandi hafa Arsenal og Sheffield United komist að samkomulagi um kaupverð á markmanni síðarnefnda félagsins, Aaron Ramsdale. Kaupverðið er sagt vera á 24 milljónir punda. Kaupverðið gæti hækkað um 6 milljónir punda ef Ramdale verður aðalmarkvörður félagsins.
Það er talið að koma Ramsdale til Arsenal verði líkleg til að hafa áhrif á framtíð Rúnars Alex en Rúnar er varamarkvörður Arsenal og hefur verið orðaður við brottför frá félaginu í sumar. Bernd Leno er núverandi aðalmarkvörður liðsins en hefur verið mikið gagnrýndur fyrir frammistöður sínar að undanförnu.
Ramsdale hefur verið valinn leikmaður tímabilsins hjá Sheffield United undanfarin tvö ár og var valinn í hóp enska landsliðsins á EM í sumar en á enn eftir að leika sinn fyrsta landsleik.