Samkvæmt enskum blöðum er Daniel Levy stjórnarformaður Tottenham hættur að svara skilaboðum og símtölum frá forráðamönnum Manchester City. City reynir nú að kaupa Harry Kane frá Tottenham.
City er sagt hafa boðið 125 milljónir punda í enska framherjann en því tilboði er ekki svarað.
Levy er samkvæmt enskum blöðum harður á því að Kane verði ekki seldur í félagaskiptaglugganum. Framherjinn er verulega ósáttur en hann heldur því fram að Levy hafi fyrir ári síðan lofað því að Kane mætti fara.
Möguleiki er á því að Levy gefi sig ef Tottenham rífur fram 150 milljónir punda en það er þó ekki öruggt.
Tottenham á leik í Sambandsdeildinni á fimmtudag en ólíklegt er að enski framherjinn fari með í það ferðalag.