Harry Kane verður ekki í liði Tottenham sem leikur gegn Pacos de Ferreira í Sambandsdeildinni á fimmtudag. Leikurinn er einn af tveimur um sæti í riðlakeppninni. BBC segir frá.
Kane missti af leiknum gegn Manchester City um helgina og flaug ekki út með hópnum til Portúgal á miðvikudag. Englendingurinn er sagður vilja yfirgefa Spurs. Hann mætti seint til æfinga eftir frí í kjölfar EM í sumar.
„Hann er að komast aftur í form,“ sagði Nuno Espirito Santo. „Hann æfir í dag, hann æfir á morgun, og svo æfir hann með hópnum á föstudag og laugardag og við tökum ákvörðun (um hvort hann spili gegn Wolves á sunnudag).“
Nuno sagði einnig að enginn af þeim leikmönnum Tottenham sem byrjuðu leikinn gegn Man City myndu spila gegn Pacos de Ferreira, sem enduðu í 5. sæti í portúgölsku úrvalsdeildinni í fyrra. „Það er mikilvægt að það sé samkeppni á milli allra,“ sagði hann. „Leikmennirnir sem byrjuðu á sunnudaginn verða ekki með.“