Sævar Atli Magnússon skoraði fjórða mark Lyngby í 4-2 sigri gegn F.Amager í dönsku b-deildinni í dag. Lyngby hefur unnið alla fimm leiki sína á tímabilinu og situr í toppsætinu með fullt hús stiga.
Freyr Alexandersson tók við liði Lyngby í sumar og fékk Sævar Atla til sín frá Leikni. Sævar kom inn á sem varamaður fyrir Lyngby í stöðunni 3-2 þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og skoraði fjórða mark heimamanna í uppbótartíma.
Lyngby er á toppi deildarinnar með 15 stig eftir 5 leiki. F.Amager situr stigalaust á botninum.