Næstu tveimur leikjum ÍBV í Lengjudeild karla hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita hjá fjórum leikmönnum liðsins. Daníel Geir Moritz, formaður ÍBV, staðfesti þetta við Fótbolta.net.
Allt liðið er komið í sóttkví þar sem óttast er að fleiri séu smitaðir af veirunni.
Næstu tveir leikir ÍBV eiga að vera gegn Þór og Fjölni en þeim hefur verið frestað.
ÍBV er í öðru sæti Lengjudeildarinnar sem stendur með 35 stig. Liðið er í góðri stöðu upp á það að tryggja sér sæti í Pepsi Max-deildinni að ári.