Jorge Mendes umboðsmaður Cristiano Ronaldo er sagður hafa boðið Manchester City að krækja í Cristiano Ronaldo frá Juventus. Fjölmiðlar á Ítalíu segja frá.
Fjallað hefur verið um framtíð Ronaldo í sumar en hann er sagður hafa áhuga á því að fara frá Juventus.
Manchester City vantar framherja en félagið reynir að klófesta Harry Kane frá Tottenham en óvíst er hvort það takist.
Mendes er sagður hafa boðið City að kaupa Ronaldo á 25 milljónir punda frá Juventus en hann á bara tíu mánuði eftir af samningi sínum.
Ronaldo lék með Manchester United til ársins 2009 en gæti nú snúið aftur í enska boltann og samið við erkifjendur United.
Félagaskiptaglugginn lokar eftir tvær vikur og má búast við miklu fjöri á markaðnum fram að því.