Liverpool gæti verið án Roberto Firmino, Fabinho og Alisson í lykilleikjum í haust vegna landsleikja og reglna um sóttkví. FIFA gaf út tilskipun nýlega og þar stendur að ensku félögin mega ekki banna leikmönnum að fara í landsleiki þrátt fyrir að þeir þurfi að fara í sóttkví þegar þeir koma aftur til Englands.
Þjóðirnar í Suður-Ameríku, þar á meðal Brasilía, eiga leiki í landsleikjahléunum í september og október og eru leikirnir fleiri en venjulega. Það er vegna þess að leikjum var frestað í mars þegar ensku liðin bönnuðu leikmönnum að fara til heimalandsins.
Brasilía og Argentína, ásamt öðrum þjóðum í Suður-Ameríku, eru á rauðum lista í Bretlandi sem þýðir að fólk sem kemur þaðan þarf að fara í 10 daga sóttkví við komu til landsins. Í síðustu landsleikjahléum hafa félögin mátt banna leikmönnum að fara ef þeir þurfa að fara í sóttkví í 5 daga eða lengur. Sú regla hefur nú verið tekin úr gildi.