Jurgen Klopp talaði um eyðslu Manchester City og Chelsea á blaðamannafundi í vikunni og sagði að hann fengi aðeins að eyða peningum sem liðið fengi fyrir sölur á leikmönnum. Klopp skilur ekki hvernig hin liðin í enska boltanum geta keypt menn á 100 milljónir punda.
Þessi athugasemd fór fyrir brjóstið á Guardiola sem svaraði því að félagið fylgi settum reglum og sagði eigendur Liverpool vilja halda peningunum fyrir sig.
„Sumir eigendur fjárfesta ekki í sínum liðum og vilja bara græða, en okkar eigendur gera fjárfesta eins og þeir geta,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi.
„Ég skil ekki vandamálið, við fylgjum öllum reglum og ef þeir trúa því ekki geta þeir farið í dómsal og komið með yfirlýsingu. Ef við erum að gera eitthvað rangt, sannið það!“
„Ef þeir vilja ekki eyða meiri peningum þá telja þeir sig ekki þurfa þess eða vegna þess að eigendurnir vilja það ekki. Ég veit það ekki, ég er ekki á æfingasvæðinu hjá þeim.“