Spænski miðillinn AS heldur því fram að Paris Saint-Germain horfi á Cristiano Ronaldo sem hugsanlegan arftaka Kylian Mbappe á næsta ári.
Samningur hins 22 ára gamla Mbappe hjá PSG rennur út næsta sumar. Sem stendur virðist hann ekki ætla að skrifa undir nýjan. Frakkinn hefur verið orðaður við Real Madrid reglulega frá komu sinni til Parísar árið 2017.
Ronaldo er í dag leikmaður Juventus. Þessi 36 ára gamla stjarna er þó í svipaðri stöðu og Mbappe hjá sínu félagi. Samningur hans rennur út næsta sumar.
Því sér PSG tækifæri til að næla í Ronaldo á frjálsri sölu til að fylla í skarð Mbappe.
Parísarliðið hefur farið mikinn á leikmannamarkaðnum í sumar. Leikmenn á borð við Lionel Messi, Sergio Ramos, Gianluigi Donnarumma, Achraf Hakimi og Gini Wijnaldum hafa gengið til liðs við félagið.
Messi og Ronaldo eru af flestum taldir bestu knattspyrnumenn síns tíma. Það yrði því ansi áhugavert að sjá þá í sama liðinu.