Chelsea hefur staðfest kaup sín á Romelu Lukaku frá Inter, félagið borgar 98 milljónir punda fyrir belgíska framherjann.
Lukaku er á förum frá Inter eftir tvö ár hjá félaginu en Thomas Tuchel hefur ólmur viljað fá inn framherja í sumar. Chelsea hafði mestan áhuga á Erling Haaland en Dortmund neitar að selja hann í sumar.
Lukaku verður launahæsti leikmaður Chelsea með nokkrum yfirburðum, N´Golo Kante þénar í dag 290 þúsund pund á viku og var launahæsti leikmaður félagsins.
The Athletic segir frá því að Lukaku muni þéna 450 þúsund pund á viku þegar bónusar og ímyndaréttur er tekinn með í reikninginn eins og iðuleag er gert.
Lukaku mun því þéna tæpar 80 milljónir króna í hverri viku. Lukaku gerir fimm ára samning við Chelsea en hann lék áður með félaginu en fór árið 2014 til Everton.
„Ég er glaður að vera mættur aftur í þetta frábæra félag, þetta hefur verið langt ferðalag fyrir mig. ÉG kom hingað sem krakki til að læra, núna kem ég með reynslu og hef þroskast,“ sagði Lukaku.