Eden Hazard er mættur aftur til Real Madrid til þess að taka þátt í undirbúningstímabilinu með félaginu eftir sumarfrí. Spænskir fjölmiðlar segja kappann hafa mætt til baka í lélegu formi og eru forráðamenn félagsins ósáttir.
Hazard hefur verið mikið á meiðslalistanum hjá Real Madrid eftir að hann var keyptur fyrir metfé frá Chelsea árið 2019. Hann missti af 33 leikjum á síðasta tímabili vegna meiðsla.
Spænskir fjölmiðlar telja að meiðslavandræðin megi rekja til þess hve illa hann hugsar um sig. Marca greindi frá því í dag að Hazard hafi verið sendur í ýmis próf til þess að athuga ástandið á honum og þær niðurstöður komu ekki vel út. Hann var látinn æfa einn í dag.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir hjá Hazard en hann hefur áður verið gagnrýndur fyrir að koma til baka úr sumarfríi í lélegu formi.
Eden Hazard var í belgíska landsliðshópnum á EM 2020 í sumar og þótti leika vel til að byrja með en var svo frá vegna meiðsla undir lokin.