Steve Bruce, þjálfari Newcastle segir að það sé tími kominn fyrir Andy Carroll að fara og spila annars staðar. Þessi fyrrverandi landsliðsmaður Englands er í leit að nýju félagi eftir að samningur hans hjá Newcastle rann út í júní síðastliðnum.
Carroll var á öðru skeiði sínu hjá Newcastle eftir að hafa gengist aftur til liðs við félagið frá West Ham árið 2019 – átta árum eftir að West Ham keyptu hann frá Liverpool á 35 milljónir punda. Hann átti við mikil meiðsli að stríða og byrjaði aðeins átta leiki undir stjórn Bruce. Carroll lék níu leiki fyrir England á árunum 2010 til 2012 og skoraði tvö mörk – eitt gegn Gana í vináttuleik og annað gegn Svíþjóð á EM 2012.
Bruce bætti við að Newcastle væru enn að vinna í því að fá Joe Willock til liðs við félagið. Hinn 21 árs gamli Willock hjálpaði liðinu að halda sæti sínu í deildinni með því að skora átta mörk í 14 deildarleikjum þegar hann var á láni frá Arsenal á síðasta tímabili.
Bruce vill endilega fá leikmanninn aftur á láni eftir að hann hjálpaði liðinu að enda tímabilið vel og krækja í 12. sætið í deildinni.
„Eins og ég hef sagt áður er þetta undir Arsenal komið. Arsenal þurfa eins og allir stóru klúbbarnir að vega og meta á undirbúningstímabilinu, sjá hvaða leikmenn þeir geta keypt og hverja ekki. Við munum halda áfram að fylgjast með honum og reyna að ná samkomulagi.“