Knattspyrnumaðurinn Þórir Jóhann Helgason skrifaði í vikunni undir samning við ítalska félagið Lecce en hann kemur þangað frá FH.
Félagsskipti hans til ítalska félagsins voru rædd í The Mike Show á dögunum en margir íslenskir leikmenn hafa verið að fara til Ítalíu upp á síðkastið.
„Hann hefur ekkert getað í sumar, fínn í fyrstu tveimur leikjunum en svo man ég ekki eftir að hafa séð nafnið hans og það virðist vera þannig að ef þú kannst að sparka í fótbolta þá geturðu komist til Ítalíu í dag,“ sagði Mikeal Nikulásson í The Mike Show.
„Það er magnað miðað við hvar Ítalía er stödd í fótboltanum í dag. Íslendingar komust ekki inn fyrir nokkrum árum þegar Ítalía var í lægð en nú eru þeir með besta liðið í boltanum og þá hrynjast inn Íslendingar. Það eru greinilega góð sambönd til Ítalíu. Annar hver leikmaður sem stendur sig vel í nokkrum leikjum getur bara komist til Ítalíu.“
„En bara frábært hjá honum að komast þarna inn, hann er náttúrulega góður leikmaður,“ sagði Mikael Nikulásson í hlaðvarpsþættinum vinsæla.
„Það er rétt hjá Mæk að Þórir hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar en það er greinilega eitthvað í honum sem er spennandi og Ítalir sjá það“ sagði Rikki G að lokum í The Mike Show.