Tímabil Fjölnis í Lengjudeild karla í ár hefur verið vonbrigði hingað til. Liðið er í sjötta sæti deildarinnar, 6 stigum frá öðru sæti þegar mótið er rúmlega hálfnað. Fjallað var um stöðu liðsins í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gær.
,,Mestu vonbrigðin í íslenkum fótbolta myndi ég segja, ekkert flóknara en það,“ sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson, einn af sérfræðingum þáttarins, um Fjölni.
Fjölnir féll úr efstu deild í fyrra. Liðinu tókst ekki að vinna leik þar. Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi, segir það hafa verið mistök að hafa Ásmund Arnarsson áfram sem þjálfara liðsins eftir tímabilið í fyrra.
,,Ási er frábær þjálfari og ég get skoðað ferilinn hans, hann er búinn að gera frábæra hluti. En ef þú vinnur ekki leik heilt tímabil, ferð inn í nýtt, það er súrt. Í staðinn fyrir að það komi inn einhver nýr, fyrir hann og fyrir félagið,“ sagði Hjörvar.
Sem fyrr segir er Fjölnir 6 stigum frá öðru sæti, sæti sem gefur þátttökurétt í efstu deild að ári. Kristján Óli Sigurðsson segir þá ekki eiga möguleika í að blanda sér í baráttuna um að fara upp.
,,ÍBV, Kórdrengir og Grindavík eru liðin sem geta farið upp, með Fram það er að segja.“