Samkvæmt hlaðvarpsþættinum Dr. Football hefur Þórir Jóhann Helgason, miðjumaður FH, tilkynnt félaginu sínu að hann hyggist ekki endurnýja samning sinn við liðið. Hann fer því annað á frjálsri sölu í haust.
Þórir hefur mikið verið um umræðunni undanfarið vegna stöðu samnings hans. Hann hefur til að mynda verið orðaður við Breiðablik og Val hér heima, sem og Lecce á Ítalíu.
,,Ég heyrði að Þórir Jóhann hefði rifið í gikkinn og tilkynnt FH-ingum það að hann muni ekki endursemja við FH og að hann sé á leiðinni eitthvað annað,“ sagði Hjörvar Hafliðason í þættinum.
,,Það þarf ekkert að koma á óvart,“ sagði Arnar Sveinn Geirsson þá.
Þórir er að upplagi miðjumaður. Hann hefur verið hjá FH frá árinu 2018. Þaðan kom hann frá uppeldisfélaginu Haukum.