Portsmouth og enska knattspyrnusambandið hafa hafið rannsókn vegna ásakana um að leikmenn liðsins hafi gerst sekir um rasisma í hópspjalli sem var lekið á samfélagsmiðla. Kynþáttaníðin beindist að leikmönnum enska landsliðsins sem klúðruðu víti í úrslitaleik EM.
Skjáskot af spjalli leikmannanna á Snapchat hefur verið í dreifingu en þar gerðust þeir sekir um rasisma og sendu meðal annars apatákn á milli og gerðu grín að Rashford, Sancho og Saka sem klúðruðu sínum vítaspyrnum.
Portsmouth sendi frá sér yfirlýsingu og segir félagið að málið sé í skoðun.
„Við vitum af þessum myndum sem eru í dreifingu á samfélagsmiðlum sem koma hugsanlega frá u18 spjallinu þar sem má finna rasísk ummæli.“
„Klúbburinn hefur hafið rannsókn og við munum láta vita þegar henni hefur verið lokið.“
„Portsmouth fyrirlítur rasisma og hann á engan stað í fótboltanum,“ sagði í yfirlýsingu félagsins.
Portsmouth Football Club statement#Pompey
— Portsmouth FC (@Pompey) July 14, 2021