Sara Björk Gunnarssdóttir var í viðtali hjá MBL.is í dag þar sem hún ræddi, meðal annars, hvernig það var að tilkynna þjálfara og liðsfélögum hjá Lyon að hún væri ólétt. Fyrirliði liðsins tók ekki svo vel í fregnirnar til að byrja með.
Sara tilkynnti í vor að hún ætti von á barni. Vegna þess gat hún ekki lokið keppnistímabilinu með franska stórliðinu Lyon.
Flestir, þar á meðal þjálfarinn, óskuðu Söru innilega til hamingju. Það tók fyrirliða liðsins, Wendie Renard, þó aðeins lengri tíma að meðtaka fréttirnar.
,,Ég man að fyrirliðinn, Wendie Renard, sat þarna og henni leist ekkert á þetta. Hún stóð svona yfir mér með hendurnar (krosslagðar). ‘Ertu ekki að fara að spila fótbolta aftur? Spilarðu ekkert meira núna?’ Ég sagði nei (ekki á þessari leiktíð). Ég var orðin frekar veik og með mikla ógleði. Hún labbaði bara í burtu,“ sagði Sara.
Hún tók þó fram að Renard hafi komið aftur til hennar um tíu mínútum síðar og óskað henni til hamingju.