Jose Mourinho var fenginn í viðtal eftir úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu í gærkvöldi og þar sagði hann hvað honum finnst í raun um Luke Shaw.
England komst yfir strax í byrjun leiks með marki frá Luke Shaw en Ítalir jöfnuðu á 67. mínútu með marki frá Bonucci. Þá var gripið til framlengingar og loks vítaspyrnukeppni þar sem Ítalía hafði betur.
Mourinho hefur gagnrýnt Shaw í töluverðan tíma en það byrjaði á meðan hann þjálfaði Manchester United þar sem Luke Shaw spilar. Shaw hefur áður viðurkennt í viðtali að hann sé orðinn þreyttur á stöðugri gagnrýni Portúgalans og skilur ekki ástæðuna fyrir henni.
„Fólk heldur að ég sé ekki hrifinn af Luke Shaw, ég verð bara að segja að hann átti frábært mót, frábæran úrslitaleik og engin varnarmistök. Mjög góð frammistaða. Auk þess er hann að bæta sig. Vel gert Luke Shaw,“ sagði Mourinho við talkSPORT eftir leik.