Michael Zorc, yfirmaður íþróttamála hjá Borussia Dortmund, segist búast við því að Erling Braut Haaland verði áfram hjá félaginu á næstu leiktíð.
Hinn tvítugi Haaland hefur gert sig gildandi sem einn af bestu framherjum heims undanfarin tvö ár. Hann sló fyrst í gegn með RB Slazburg í Austurríki. Þaðan fór hann svo til Dortmund þar sem hann hefur raðað mörkunum inn.
Í kjölfarið hefur hann reglulega verið orðaður við stærstu félög heims. Það komu til að mynda fréttir fyrr í vikunni þess efnis að Chelsea væri að undirbúa 150 milljóna punda tilboð í leikmanninn.
,,Það hefur ekkert breyst. Við undirbúum næsta tímabil með Erling innanborðs,“ sagði Zorc við þýska blaðið BILD.
Hvort sem Haaland verði áfram hjá Dortmund út næstu leiktíð eða ekki þá er það alveg á hreinu að leikmaðurinn fer í stærra lið á endanum.