Nina Farooqi, 37 ára gömul ensk kona, var rekin úr starfi sínu eftir að upp komst um að hún hafi logið til um að vera veik til að komast á leik Englands og Danmerkur í undanúrslitum Evrópumótsins.
Vinkona Farooqi bauð henni óvænt á leikinn með stuttum fyrirvara. Vegna manneklu á vinnustað hennar sá hún ekki fram á að fá frí. Hún taldi sig því knúna til að hringja í yfirmann sinn og segjast vera orðin veik.
Planið virtist ætla að ganga upp þar til myndavélarnar á vellinum beindust að Farooqi og vinkonu hennar er þær fögnuðu jöfnunarmarki Englands. Þá gátu milljónir manna um allan heim, þar á meðal yfirmaður Farooqi, séð að hún var stödd á vellinum, alls ekki slöpp að sjá.
Farooqi hefði þó vissulega getað reynt að vera laumulegri en raun bar vitni. Til að mynda endurbirti hún Instagram-færslu frá sjónvarpskonunni Stacey Dooley, þar sem Farooqi sást í mynd.
Konan býr norðarlega í Englandi. Er hún tók lestina aftur heim frá Lundúnum, þar sem leikurinn fór fram, fékk hún símtal frá yfirmanni sínum. Hann sagði henni upp störfum í gegnum símann.
,,Þeir sögðust hafa séð mig á leiknum. Ég sagði þeim mínar ástæður en ég fékk enga samúð. Þetta er þeirra ákvörðun og afleiðing þess sem ég gerði,“ sagði Farooqi í viðtali við Telegraph.
,,Það er smá eftirsjá, það vill enginn láta reka sig. En ég hefði hatað það að missa af leiknum. Ég myndi gera þetta allt aftur. Fótboltinn er lífið mitt,“ bætti hún við.
Yfirmaður hennar, Charlie Taylor, segir að hann hefði ekki leyft henni að missa af því einstaka tækifæri að fara á leikinn ef Farooqi hefði komið hreint fram.
,,Þetta eru spennandi tímar fyrir allt England. Við hefðum ekki látið hana missa af því tækifæri að komast á leikinn. Því miður laug starfsmaðurinn í þessu tilfelli. Það er brot í samningi okkar á milli svo við höfðum ekkert val,“ sagði Taylor. Hann bætti við að hann myndi gefa öllu starfsfólki sínu frí til að horfa á úrslitaleik Evrópumótsins á milli Englands og Ítalíu á sunnudag.