Adam Lallana, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi leikmaður Brighton, viðurkennir að Harry Maguire sé mun betri en hann hafði áður haldið.
Hinn 28 ára gamli Maguire hefur leikið virkilega vel á síðustu árum. Hann varð þá til að mynda dýrasti varnarmaður heims þegar Manchester United keypti hann frá Leicester árið 2019.
Maguire er einnig orðinn algjör lykilmaður í hjarta varnarinnar hjá Gareth Southgate, landsliðsþjálfara Englands.
,,Ég vanmat Harry Maguire. Ég skal viðurkenna það. Mér hefur alltaf fundist hann vera góður leikmaður en á þessu móti hefur hann sýnt mér, vonandi öðrum líka, að hann er í allt öðrum klassa. Hann er búinn að sanna sig sem varnarmaður í heimsklassa,“ sagði Lallana.
Maguire verður í eldlínunni með enska landsliðinu í úrslitaleik Evrópumótsins gegn Ítalíu annað kvöld. Leikið verður á Wembley. Leikurinn hefst klukkan 19 annað kvöld.