Margir saka Jamie Carragher, Liverpool-goðsögn og knattspyrnusérfræðing, um hræsni eftir að gömul ummæli hans um leikmenn Paris Saint-Germain voru rifjuð upp.
Árið 2018 var Carragher brjálaður eftir tap Liverpool gegn PSG í Meistaradeild Evrópu. Hann sakaði leikmenn franska liðsins þá um að henda sér í jörðina og svindla.
,,Ég skil ekki hvernig þeir geta farið heim og talað við fjölskyldur sínar og eiginkonur. Þeir ættu að skammast sín,“ var á meðal þess sem Carragher sagði um leikmenn PSG.
Í gær tjáði hann sig svo um vítaspyrnuna sem Raheem Sterling fiskaði fyrir enska landsliðið í undanúrslitum Evrópumótsins gegn Danmörku á miðvikudag.
Sterling fór afar auðveldlega niður í teig Dana og eru flestir á því að ekki hafi átt að dæma víti. Dómarinn benti hins vegar á punktinn og upp úr vítaspyrnunni skoraði Harry Kane sigurmark leiksins.
,,Raheem Sterling og Harry Kane eru ekki svindlarar, þeir eru sniðugir,“ skrifaði Carragher á Twitter daginn eftir undanúrslitaleikinn.
Margir saka þennan fyrrum varnarmann Liverpool um hræsni eftir ummælin, enda lét hann leikmenn PSG ansi hressilega heyra það fyrir að dýfa sér um árið.
— Out Of Context Football (@nocontextfooty) July 8, 2021