Harry Maguire varnarmaður enska landsliðsins hefur staðið vaktina eins og klettur í hjarta varnarinnar á Evrópumótinu. Fyrir tæpu ári síðan var Maguire í sviðsljósinu fyrir allt aðra hluti.
Maguire var handtekinn fyrir að ráðast á lögreglumenn í Grikklandi en málið er enn í dómskerfinu í Grikklandi. Maguire var dæmdur sekur en áfrýjaði og telst því saklaus maður samkvæmt lögum þar í landi.
Jamie Carragher sérfræðingur í enska boltanum þekkir það að vera í sviðsljósinu vegna slæmrar hegðunar. Fyrir nokkrum árum hrækti hann á stuðningsmenn Manchester United sem voru að espa hann upp. Var Carragher settur í kuldann hjá Sky Sports um tíma vegna málsins.
Carragher kom sér í samband við Maguire síðasta sumar til að hvetja hann áfram. „Við skiptumst á nokkrum skilaboðum, ég reyndi að nota mína reynslu af svona stormi þar sem þú hefur sjálfur gert mistök,“ sagði Carragher.
„Ég sagði honum að bera höfuðið hátt og að þessir erfiðu tímar myndu taka enda.“
Gareth Southgate þjálfari Englands segir að Maguire hafi þurft að þola margt og læra mikið á síðasta sumri. „Að vera fyrirliði Manchester United er mikil áskorun, það er rosaleg ábyrgð en það gerði hann að betri leikmanni.“