„Verður Gylfi Þór hér í ágúst? Við teljum það mjög ólíklegt,“ er skrifað í grein á á vefnum Goodison News þar sem fjallað er ítarlega um Everton.
Kevin Campbell fyrrum fyrirliði félagsins er í viðtali þar sem fjallað er um Gylfa Þór og hans framtíð hjá félaginu. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Gylfa Þórs síðustu daga.
Everton er sagt tilbúið að selja Gylfa fyrir rétt verð og er talað um 10 milljónir punda, það er 35 milljónum punda minna en félagið borgaði fyrir Gylfa fyrir fjórum árum. Gylfi var einn allra besti leikmaður Everton á liðnu tímabili.
„Hann er stór hlekkur í liðinu, tímarnir verða hins vegar að breytast hjá Everton. Gylfi hefur þjónað félaginu vel en það þarf að breyta hópnum,“ sagði Campbell um framtíð Gylfa.
„Það verður að yngja hópinn, Gylfi er einn af þeim sem gæti orðið fórnarlamb þess. Ég tel hann samt vera góðan leikmann.“
Vitað er að Gylfi getur farið til Sádí-Arabíu en hingað til hefur hann hafnað slíkum tilboðum þó þau gefi vel í aðra hönd.