Þórunn Helga Jónsdóttir fékk boð um að mæta í 18 ára afmæli brasilísku stórstjörnunnar Neymar er hún lék með Santos í Brasilíu fyrir rúmum áratug. Hún hafnaði hins vegar boðinu. Hún ræddi þetta í þættinum ,,Á Meistaravöllum“ á Hringbraut.
Hin 36 ára gamla Þórunn, sem er á mála hjá KR í dag, lék með kvennaliði Santos frá 2009 til 2010. Á sama tíma lék Neymar með unglingaliði félagsins karlamegin, ásamt því að vera að stíga sín fyrstu skref með aðalliðinu.
Á tíma sínum hjá Santos segir Þórunn að kvennaliðið hafi að miklu leyti deilt aðstöðu með unglingaliðinu. Þannig hafi hún umgengist Neymar regluega.
,,Hann var í unglingaliðinu og aðstaðan var svolítið þannig að við deildum aðstöðunni með unglingaliðinu. Hann hefur verið að stíga sín fyrstu skref með aðalliði Santos,“ sagði Þórunn.
Þetta varð til þess að Neymar bauð kvennaliðinu í afmælið sitt er hann varð 18 ára gamall.
,,Ég ákvað snemma þegar ég fór til Brasilíu að gera bara allt sem stelpurnar gerðu. Við fórum í kirkju einu sinni til tvisvar í viku og Neymar fór með okkur þangað og stákarnir í unglingaliðinu. Þannig hann bauð okkur stelpunum í liðinu bara í afmælið sitt. Ég held að það hafi verið 18 ára afmælið hans. Ég var þarna 25 ára stelpa og hann 18 ára polli. Ég man nú ekki hvað ég var að gera þetta kvöld. Ég sé pínu eftir því að hafa ekki kíkt aðeins,“ sagði Þórunn um boðið.