Rúnar Þór Sigurgeirsson vinstri bakvörður Keflavíkur er að ganga í raðir IK Sirius í Svíþjóð. Frá þessu segir Hrafnkell Freyr Ágústsson sérfræðingur í markaþætti Lengjudeildarinnar.
Rúnar Þór er öflugur bakvörður sem var í fyrsta sinn í A-landsliðshópi Íslands nú í maí, þar lék hann sinn fyrsta A-landsleik.
Rúnar sem er fæddur árið 1999 hefur í heildina spilað tíu leiki í efstu deild hér á landi.
Sirius leikur í efstu deild í Svíþjóð en liðið mun kaupa Rúnar af Keflavík. Um er að ræða mikla blóðtöku fyrir Keflavík sem missti Ísak Óla Ólafsson í atvinnumennsku á dögunum.
Rúnar fór á reynslu til félagsins í janúar og virðist hafa náð að heilla forráðamenn félagsins.
Keflavík og IK Sirius hafa loksins komist að samkomulagi um kaupverð. Rúnar Þór Sigurgeirsson verður leikmaður þeirra mjög fljótlega.
— Hrafnkell Freyr Ágústsson (@hrafnkellfreyr) June 28, 2021