Eden Hazard tekur líklega ekki meira þátt í Evrópumótinu vegna meiðsla sem hann varð fyrir í sigri Belga á Portúgal í gær. Hazard fór meiddur af velli.
Hazard sem hefur verið mikið meiddur síðustu tvö ár og fékk hann tak aftan í lærið í sigrinum í gær þar sem bróðir hans, Thorgan Hazard skoraði eina mark leiksins.
„Ég held að Evrópumótið sé búið fyrir Eden, hann spilar ekki meira,“ sagði Thibaut Courtois samherji Hazard hjá Real Madrid og Belgíu eftir leikinn.
Ljóst er að það er mikil blóðtaka fyrir Belga að missa Hazard út nú þegar liðið er komið í átta liða úrslit en Kevin de Bruyne hefur einnig verið tæpur á mótinu.
Hazard er þrítugur en hann missti mikið út á síðasta tímabili með Real Madrid og virðist eiga í vandræðum með að vera heill heilsu.