Nokkur Íslendingalið áttu leik í sænsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir lék allan leikinn með Kristianstad í 6-1 sigri gegn Pitea. Hún skoraði sjötta mark liðsins. Sif Atladóttir sat á varamannabekk Kristianstad í dag. Elísabet Gunnarsdóttir stýrir liðinu. Kristianstad er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig eftir tíu leiki.
Rosengard vann Hacken 2-1 í Íslendingaslag. Glódís Perla Viggósdóttir stóð vaktina allan leikinn í vörn Rosengard. Diljá Ýr Zomers kom inn á sem varamaður fyrir Hacken og lék um tíu mínútur. Rosengard er á toppi deildarinnar með 28 stig. Þær hafa nú 8 stiga forskot á Hacken, sem er í öðru sæti.
Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn fyrir AIK í 0-2 tapi gegn Eskilstuna. AIK er í níunda sæti deildarinnar með 9 stig.