Samuel Eto’o segir að Kylian Mbappe verði ,,nýr guð“ fótboltans eftir að Lionel Messi og Cristiano Ronaldo leggja skóna á hilluna.
Messi og Ronaldo hafa verið á toppi heimsfótboltans í meira en áratug og fært knattspyrnuunnendum einstakar stundir með snilli sinni.
Nú er Messi hins vegar orðinn 34 ára og Ronaldo 36 ára. Þrátt fyrir að þeir virðist enn eiga nóg eftir þá mun óneitanlega koma að deginum þar sem þeir hverfa úr leiknum.
,,Cristiano er annar guð. Hann og Messi eru leikmenn sem setja markið hátt í nútíma knattspyrnu,“ sagði Eto’o. Kamerúninn lék með Messi hjá Barcelona. Hann lék einnig með Real Madrid, Inter, Chelsea og mun fleiri liðum á ferli sínum.
,,Það er þó annar guð á leiðinni sem verður klár þegar Messi og Cristiano verða orðnir þreyttir á að gleðja okkur inni á vellinum. Sá guð verður Kylian Mbappe,“ bætti Eto’o við.
Hinn 22 ára gamli Mbappe hefur átt frábæran feril hingað til þrátt fyrir ungan aldur. Hann varð heimsmeistari með franska landsliðinu árið 2018. Þá hefur hann raðað inn titlum í heimalandinu með Paris Saint-Germain og Monaco.