Mikel Arteta, stjóri Arsenal, reynir að sjá til þess að kaupin á miðverðinum Ben White frá Brighton gangi í gegn. Duncan Castles, blaðamaður hjá Times greinir frá þessu.
Fyrsta tilboði Arsenal í hinn 23 ára gamla White var hafnað á dögunum. Það hljóðaði upp á um 40 milljónir punda. Líklegt er að Arsenal þurfi að punga út nær 50 milljónum punda, ætli þeir sér að krækja í hann. Castles segir að White muni þéna um 120 þúsund pund á viku, skrifi hann undir hjá Arsenal.
White átti flott tímabil með Brighton í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hann var verðlaunaður með sæti í enska landsliðshópnum fyrir Evrópumótið. Hann kom inn í hópinn eftir meiðsli Trent Alexander-Arnold.
Arteta ku hafa miklar mætur á White. Hann sér hann sem mögulegan framtíðarfyrirliða Arsenal. Pierre Emerick Aybameyang er fyrirliði liðsins í dag.