Fjölmargir vinnustaðir landsins eru með leiki í gangi í tengslum við Evrópumótið í fótbolta sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur. Borgarstjórn Reykjavíkur er þar engin undantekning þó að í grunninn sé vinnustaðurinn klofinn í andstæðar fylkingar, meirihluta og minnihluta.
Staðan í EM-leik borgarstjórnar er aðgengileg á netinu og þar má sjá að forseti Borgarstjórnar, Pawel Bartoszek, er í forsæti deildarinnar eins og vera ber. Líklegt má telja að stærfræðimenntun Pawels hafi hjálpað honum í líkindareikningnum á bak við úrslitin en að sama skapi má áætla að afleitt gengi Pólverja hafi skaðað hann mjög. Ekki nema að Pawel hafi giskað með hausnum frekar en hjartanu.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, er fastur í miðjumoði í leiknum og verður að teljast ólíklegt að hann nái að rífa sig upp úr því. Athygli vekur að aðstoðarmaður Dags og hans nánasti samstarfsmaður, Pétur Krogh Ólafsson, situr kyrfilega á botni deildarinnar og því er möguleiki að borgarstjórinn hafi hlustað um of á ráðleggingar aðstoðarmannsins að minnsta kosti fyrst um sinn. Ljóst er að borgarbúar verða að vonast eftir því að ráðleggingar Péturs á sviði pólitíkur og verkefna borgarinnar séu betri en innsýn hans í knattspyrnu.
Alls tóku 16 einstaklingar þátt í leiknum og er greinilegt að meiri stemmning var fyrir honum í meirihlutanum en minnihlutanum. Þannig virðast aðeins nokkrir Sjálfstæðismenn hafa látið til leiðast en eru þó að gera ágætt mót. Þannig er Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sú eina sem veitir Pawel einhverja samkeppni.
Athygli vekur að oddviti Katrínar, Eyþór Arnalds, kaus ekki að taka þátt því miðað við Ronaldo-legar uppstillingar sínar í viðtölum virðist Eyþór fylgjast vel með fótbolta.
Þegar þú ert að fara taka aukaspyrnu en lendir í óvæntu viðtali: pic.twitter.com/H2HRRubeXb
— Albert Ingason. (@Snjalli) April 14, 2021
Þá virðist Vigdís Hauksdóttir ekki hafa nennt að taka þátt en miðað við það sem undan er á gengið er hreinlega ekki ljóst hvort að henni hafi verið boðið að vera með.