Gareth Bale hefur staðfest að hann ætli að spila áfram fyrir velska landsliðið. Hann rauk út úr viðtali við BBC í gær eftir að hafa verið spurður út í framhaldið með liðinu.
Framtíð þessa 31 árs gamla leikmanns hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Orðrómar voru um það fyrr í sumar að hann myndi fljótlega hætta knattspyrnuiðkun. Þá var því velt upp fyrir tapleik Wales gegn Danmörku ú 16-liða úrslitum Evrópumótsins í gær hvort að um síðasta landsleik Bale væri að ræða.
Hann helti olíu á eldinn sem sú umræða var með því að ganga út úr viðtalinu þegar spurning um framtíð hans með Wales bar á góma eftir leik.
Nú hefur leikmaðurinn hins vegar sagt að hann muni leika áfram með landsliðinu.
,,Ég vil spila áfram. Fólk er alltaf að spyrja heimskulegra spurninga en auðvitað elska ég að spila fyrir Wales. Ég mun spila fyrir Wales þar til ég legg skóna á hilluna,“ sagði Bale við fjölmiðla í heimalandinu.