Íslenskir leikmenn voru á ferðinni með félagsliðum sínum í Noregi og Svíþjóð í dag.
Viðar Ari skoraði í Íslendingaslag
Sandefjörd vann Viking, 3-0, í efstu deild Noregs. Viðar Ari Jónsson spilaði allan leikinn fyrir sigurliðið og skoraði fyrsta mark leiksins. Samúel Kári Friðjónsson var í byrjunarliði Viking og spilaði stærstan hluta leiksins. Viking er í sjötta sæti með 12 stig eftir átta leiki. Sandefjörd er í ellefta sætimeð 6 stig en hefur þó aðeins leikið sex leiki.
Tveir Íslendingar léku í sænsku B-deildinni
Bjarni Mark Antonsson var í byrjunarliði Brage og spilaði stærstan hluta leiks í 1-3 tapi gegn Örgryte sænsku B-deildinni. Lið hans er í sextánda sæti deildarinnar, neðsta sæti, með 9 stig eftir ellefu leiki.
Alex Freyr Hauksson kom inn á sem varamaður fyrir Östers í 2-0 sigri á Eskilstuna í sömu deild. Hann lék í stundarfjórðung. Östers eru í sjöunda sæti deildarinnar með 15 stig eftir ellefu leiki.