Spænska knattspyrnustjarnan Santi Mina, sem leikur fyrir Celta Vigo í spænsku úrvalsdeildinni, á yfir höfði sér mögulega fangelsisvist eftir atvik sem á að hafa gerst árið 2017. Mina er sakaður um að hafa kynferðislega misnotað konu en sagt er að málið verði tekið fyrir dómi á Spáni á næstu vikum.
Alþjóðlega fjölmiðlasamsteypan Efe, sem er frá Spáni, var fyrst til að greina frá málinu. Efe á að hafa fengið það staðfest frá dómstólum á Spáni að málið sé ekki ennþá komið með dagsetningu en það eina sem vantar eru upplýsingar frá lögfræðiteymi spænsku stjörnunnar. Ef Mina, sem lék um tíma með U-21 landsliði Spánar, verður sakfelldur gæti hann setið inni í 8 ár fyrir misnotkunina.
Knattspyrnumaðurinn David Goldar, sem leikur með UD IBiza í næst efstu deild Spánar, á að hafa farið með konunni sem um ræðir í bíl sem lagður var nálægt skemmtistað. Mina er þá sagður hafa klætt sig úr öllum fötunum og farið svo inn í bílinn á meðan konan og Goldar voru þar.
Mina er þá sagður hafa reynt að fullnægja „kynlífsþörf sinni“ þrátt fyrir mótmæli konunnar. Mina á að hafa farið úr bílnum en komið svo aftur skömmu síðar og misnotað konuna kynferðislega. Konan er sögð þjást af alvarlegum kvíða og þunglyndi í kjölfar atviksins. Þá segir að hún þjáist af áfallastreituröskun sem hamlar henni gífurlega í daglegu lífi.
Óskað er eftir því að Mina verði dæmdur í fangelsi, konan fái 500 metra nálgunarbann á hann næstu tíu árin og að hann borgi henni um 7,4 milljóna í miskabætur.