The Athletic og fleiri ensk blöð fjalla um innkaupastefnu Manchester United í sumar og þar virðast þrjú nöfn vera efst á blaði stjórans.
Í grein The Athletic kemur fram að United sé í viðræðum við Atletico Madrid um Kieran Trippier og við Borussia Dortmund vegna Jadon Sancho.
United er tilbúið að borga 80 milljónir punda fyrir Sancho en Dortmund vill auka 20 milljónir punda í bónusa ef vel gengur hjá United og Sancho.
United gæti fengið Trippier fyrir um 10 milljónir punda en samkvæmt The Athletic vill hann komast heim til Englands. Í fréttinni segir að Trippier sé nú þegar byrjaður að skoða sér hús í úthverfum Manchester.
Einnig kemur fram að Solskjær hafi mikinn áhuga á Rapahael Varane varnarmanni Real Madrid. Hingað til hafa forráðamenn United talið að Varane myndi framlengja við Real Madrid en sú skoðun hefur breyst. Varane á ár eftir af samningi sínum við Real Madrid og hefur ekki viljað framlengja.
Kaupverðið sem Real Madrid gæti sett upp gæti þó fælt United frá, hann á bara ár eftir af samningi og vill United ekki borga of mikið.
Í fréttum kemur einnig fram að Solskjær horfi ekki í það að kaupa sóknarmann í sumar verandi með Edinson Cavani, Anthony Martial og fleiri til taks.