Nokkrir vináttulandsleikir fóru fram í kvöld. Stærstu landsliðin eru að undirbúa sig fyrir Evrópumótið sem hefst þann 11. júní.
Erfitt fyrir tíu leikmenn Wales
Neco Williams var rekinn af velli um miðjan fyrri hálfleik er Wales mætti Frökkum á útivelli. Einum fleiri unnu heimsmeistararnir þægilegan sigur. Kylian Mbappe skoraði fyrsta mark þeirra á 35. mínútu. Antoine Griezmann bætti svo við marki í upphafi seinni hálfleiks. Ousmane Dembele gerði svo þriðja og síðasta mark Frakka þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Lokatölur urðu 3-0.
Saka skoraði sigurmarkið
England vann 1-0 sigur á Austurríki. Ungstirnið Bukayo Saka skoraði eina mark leiksins eftir tæpan klukkutíma leik.
Jafnt hjá Þýskalandi og Danmörku
Þýskaland og Danmörk gerðu 1-1 jafntefli. Florian Neuhaus kom Þjóðverjum yfir snemma í seinni hálfleik en Yussuf Poulsen jafnaði fyrir Dani þegar 20 mínútur lifðu leiks.
Hörkuleikur á milli Hollendinga og Skota
Jack Hendry kom Skotum yfir gegn Hollendingum á 11. mínútu. Memphis Depay jafnaði stuttu síðar. Kevin Nisbet skoraði annað mark skota um miðjan seinni hálfleik. Depay var þó aftur á ferðinni í lok leiks og tryggði Hollandi 2-2 jafntefli.