Adrien Rabiot viðurkenndi í viðtali á dögunum að hluti af leikmönnum Juventus hafi ekki skilið hugmyndafræði Andrea Pirlo, sem var rekinn sem þjálfari Juve á dögunum.
Juventus hafði unnið deildina níu ár í röð en eftir slakt tímabil hjá liðinu í ár stóð Inter Milan uppi sem sigurvegari. Juve tapaði einnig mjög óvænt gegn Porto í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Liðið tryggði sér Meistaradeildarsæti í síðasta leik tímabilsins með sigri gegn Bologna og reyndist það lokaleikur Pirlo.
Adrien Rabiot viðurkenndi í viðtali við Gazzettuna að leikmenn hafi ekki skilið hugmyndir þjálfarans almennilega.
„Sumir skildu ekki hugmyndafræði hans eins vel og við hefðum átt að gera, til dæmis áttum við að verjast í 4-4-2 og breyta svo um taktík þegar við fórum fram og þá fóru ýmsir leikmenn úr stöðu,“ sagði Rabiot í viðtali við Gazzettuna.
„Ég sendi honum skilaboð til að segja að hann átti skilið meiri tíma til að sýna fram á gæðin í þessari hugmyndafræði. En í fótboltanum í dag er enginn tími.“
„Ég kann virkilega að meta hann sem persónu og þjálfara.“
Rabiot var valinn í hóp Frakklands fyrir EM í sumar.