Nokkrir fjölmiðlar á Spáni, hafa greint frá því að Lionel Messi, fyrirliði Barcelona, hafi tjáð Joan Laporta, forseta félagsins, að hann muni vera áfram hjá félaginu.
Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Messi hjá félaginu undanfarna mánuði. Samningur hans rennur út í sumar en nú virðist það vera sem svo að hann muni framlengja við Börsunga.
Heimildir TVE, herma hins vegar að Messi hafi einnig tjáð Laporta, að það verði að styrkja leikmannahóp Barcelona. Hann vill fá fullvissu um að það verði gert áður en hann krotar undir nýjan samning.
Barcelona hefur ekki náð sér á fullt skrið á tímabilinu þrátt fyrir að hafa unnið spænska bikarinn. Liðið datt nokkuð snemma úr Meistaradeild Evrópu en er þó í bullandi séns í spænsku úrvalsdeildinni.
Messi er besti leikmaðurinn í sögu Barcelona og er af mörgum talinn besti leikmaður knattspyrnusögunnar.
Hjá Barcelona hefur Messi spilað 773 leiki, skorað 667 mörk og gefið 292 stoðsendingar, auk þess að hafa unnið til fjölda titla.