Damien Duff fyrrum kantmaður Chelsea segir að Eden Hazard hafi slæmt viðhorf, hann fitni oft á tíðum og beri ekki virðingu fyrir starfinu sínu.
Hazard gekk í raðir Real Madrid frá Chelsea fyrir tveimur árum, síðan þá hefur hann mikið misst út vegna meiðsla og verið sakaður um að hugsa ekki nógu vel um sig.
„Þú óttast um hann í framtíðinni, hann er þrítugur og treysti oft á hraða sinn og kraft til að fara framhjá mönnum. Við vitum að eftir þrítugt er það erfitt,“ sagði Duff.
„Hann hefur heldur aldrei hugsað um sig eins og alvöru atvinnumaður, það sem við sjáum hjá Messi og Ronaldo.“
„Hann mætti til Real Madrid í fyrsta sinn, stjörnuleikmaður og hann var of þungur. Feitur, það má kalla þetta hvað sem er.“
Duff óttast að meiðsli Hazard síðustu árin geti gert út um það að hann komist aftur á toppinn. „Hann hefur meiðst ellefu sinnum hjá Real Madrid og það er erfitt að koma til baka endalaust. Hann hefur í gegnum ferilinn barist við aukakílóin.“