Barcelona tók á móti Granada í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leiknum lauk með 2-1 sigri Granada en leikið var á heimavelli Barcelona, Nou Camp.
Barcelona hefði með sigri komist upp fyrir Atletico Madrid í 1. sæti deildarinnar.
Lionel Messi, kom Börsungum yfir með marki á 23. mínútu eftir stoðsendingu frá Antoine Griezmann.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 63. mínútu þegar að Darwin Machis jafnaði metin fyrir Granada.
Hlutirnir tóku síðan stefnu til hins verra fyrir leikmenn Barcelona þegar að knattspyrnustjóri liðsins, Ronald Koeman, fékk að líta rauða spjaldið.
Á 79. mínútu tryggði Jorge Molina, Granada sigur með marki eftir stoðsendingu frá Adríán Marín.
Lokatölur 2-1 sigur Granada. Barcelona er eftir leikinn í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 71 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Atletico Madrid. Granada situr í 8. sæti með 45 stig.