PSG tók á móti Manchester City í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Leikurinn endaði með 1-2 sigri gestanna og Manchester City fer með mikilvæg útivallamörk í seinni leikinn.
Áhorfendur bjuggust við skemmtilegum og opnum leik þessara sóknarsinnuðu liða og þau svöruðu kallinu. Leikmenn PSG spiluðu frábærlega í fyrri hálfleik og áttu mörg hættuleg færi. Marquinhos braut ísinn fyrir heimamenn þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum með skalla eftir hornspyrnu. Leikmenn Manchester City voru nokkuð ólíkir sjálfum sér í fyrri hálfleik og buðu ekki upp á mikið.
Gestirnir voru líflegri í seinni hálfleik og uppskáru jöfnunarmark á 65. mínútu. Þá leit út fyrir að Kevin De Bruyne ætlaði að senda boltann fyrir inn í teig, Navas bjóst við að einhver myndi fara í boltann og áttaði sig of seint á í hvað stefndi þegar boltinn sveif í markið.
Fimm mínútum síðar kom Mahrez gestunum yfir með marki beint úr aukaspyrnu sem fór í gegnum varnarvegg PSG. Á 77. mínútu fékk Gueye beint rautt spjald fyrir ruddalegt brot á Gundogan. Eftir rauða spjaldið róaðist leikurinn aðeins og ekki voru fleiri mörk skoruð.
Seinni leikur liðanna fer fram á þriðjudaginn í næstu viku á heimavelli Manchester City og þá verður ljóst hvort liðið tryggir sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
PSG 1 – 2 Manchester City
1-0 Marquinhos (´15)
1-1 De Bruyne (´64)
1-2 Mahrez (´71)