Fyrir átta árum síðan neyddust leikmenn Arsenal til að standa heiðursvörð þegar Manchester United hafði tryggt sér Englandsmeistaratitilinn. Robin Van Persie, sem hafði verið hjá Arsenal í átta ár við góðan orðstír fór yfir til United fyrir tímabilið og spilaði stórt hlutverk í meistaraliðinu.
Lengi hefur verið hefð fyrir því að lið standi heiðursvörð fyrir meistarana í ensku úrvalsdeildinni í lokaleikjum deildarinnar. Á þessu varð engin breyting í þessum leik og vildi Wenger sýna virðingu. Stuðningsmenn voru brjálaðir yfir þessu enda enn sárir eftir skipti Van Persie yfir til United. Van Persie sagði einnig frá því í hlaðvarpsþætti að hann hefði ekki verið hrifinn af þessu:
„Ég var ekki hrifinn af þessu. Þetta voru vinir mínir og ég var þarna í átta ár. Ég var mjög glaður þegar þessu lauk,“ sagði Van Persie í hlaðvarpinu UTD
„Ég sá á liðsfélögum mínum að þeim fannst þetta hræðilegt sem ég skil vel.“
„Það er fallegt að gera þetta fyrir meistara en þetta var bara ekki rétt þarna, hvorki fyrir mig né Arsenal. Mér leið hrikalega vandræðalega þarna.“