Ryan Giggs hefur fundið ástina á nýjan leik en ensk blöð segja frá. Á föstudag var greint frá því að Giggs hefði verið ákærður fyrir að ráðast á fyrrum unnustu sína.
Ný kærasta Giggs er Zara Charles en hún er 33 ára gömul og starfar sem nærfatafyrirsæta ef marka má ensk blöð. Er hún fjórtán árum yngri en Giggs.
Þau hafa sést saman í úthverfi Manchester en það slitnaði upp úr sambandi Giggs við Kate Greville seint á síðasta ári. Hún hefur sakað Giggs um að hafa lagt hendur á sig.
Giggs og Kate höfðu verið úti að skemmta sér þegar hún sakaði hann um framhjáhald, Giggs var handtekinn á heimili þeirri. Á föstudag var svo gefin út ákæra en Giggs er sakaður um ofbeldi gagnvart henni og systur hennar sem var á svæðinu.
„Ég ber virðingu fyrir því að málið þarf að ganga sína leið í kerfinu og um er að ræða alvarlegar ásakanir. Ég mun halda fram sakleysi mínu og er spenntur fyrir því að hreinsa nafn mitt,“ sagði Giggs í yfirlýsingu eftir að ákæra var gefin út.
Giggs var leystur frá störfum sem þjálfari Wales eftir að ákæra var gefin út og mun hann ekki stýra liðinu á Evrópumótinu í sumar.