Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United gerir lítið úr því hvernig Harry Maguire fyrirliði félagsins talaði við Fred miðjumann félagsins í gær.
Leeds United tók á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en leikið var á heimavelli Leeds, Elland Road.
Manchester United, siglir eftir leikinn, lignan sjó í 2. sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir Manchester City og 8 stigum á undan Leicester City sem situr í 3. sæti.
Í leiknum mátti heyra Maguire lesa yfir Fred og sagði hann meðal annars við hann að hann væri „Helvítis heimskingi“.
Solskjær var spurður út í málið eftir leikinn. „Við erum með hóp sem gerir miklar kröfur til hvors annars, við viljum það besta á æfingum og í leikjum. Þetta snýst ekki bara um að vera góður við hvorn annan,“ sagði Solskjær.
„Við krefjumst þess að menn gefi allt í hlutina, ég var stoltur af því hversu sterkir við vorum. Þeir ógnuðu aldrei marki okkar í síðari hálfleik, okkur vantaði smá kraft til að vinna leikinn.“