Sean Dyche stjóri Burnley vonast til þess að Jóhann Berg Guðmundsson sé aðeins lítillega meiddur. Kantmaðurinn knái var tekinn af velli í fyrri hálfleik gegn Fulham í gær.
Jóhann fann þá til aftan í læri og fór af velli, hann hafði komist á gott skrið síðustu vikur. Jóhann hafði skorað í tveimur deildarleikjum í röð þegar kom að leiknum gegn Fulham.
Leiknum á Turf Moor í gær lauk með 1-1 jafntefli. „Jóhann fann til í lærinu, ég verð að taka ákvörðun núna um að vernda leikmennina,“ sagði Dyche að leik loknum.
Meiðsli hafa herjað á leikmenn Burnley síðustu vikur og Dyche segist aldrei hafa upplifað neitt þessu líkt.
Jóhann fer í nánari skoðun hjá læknateymi Burnley í dag og þá kemur í ljós hvort hann geti spilað gegn West Brom um helgina.